Gagnaveita Reykjavíkur stofnfélagi í alþjóðlegum samtökum ljósleiðarafyrirtækja

23. júlí 2018

Gagnaveita Reykjavíkur er meðal stofnenda nýrra alþjóðlegra samtaka ljósleiðarafyrirtækja sem vilja sjá gígabita ljósleiðara alla leið til heimila og fyrirtækja og tryggja valkosti í öflugri fjarskiptaþjónustu. Aðrir stofnendur eru CityFibre í Bretlandi, Deutsche Glasfaser í Þýskalandi, Open Fiber á Ítalíu og SIRO á Írlandi. Fyrirtækin eiga það sameiginlegt að reka opin ljósleiðarakerfi og vera eingöngu á heildsölumarkaði.

Stjórnendur fyrirtækjanna undirrituðu stofnsamning í Róm nú í vikunni að viðstöddum þeim Johannes Gungl, formanni BEREC, sem eru samtök eftirlitsaðila með fjarskiptamörkuðum í Evrópu, og Erzebet Fitori. Hún er formaður FTTH Council Europe, sem er evrópskur samstarfsvettvangur um ljósleiðaratengingu alla leið til heimila.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur

Okkar hlutverk hefur verið að leiða ljósleiðaravæðingu íslenskra heimila þannig að nú mælist tengihraði þeirra einn sá mesti í heimi. Þessi nýju samtök heildsölufyrirtækja með opin ljósleiðaranet styðja við öfluga samkeppni í fjarskiptum, sem skipta heimilin sífellt meira máli. Viðskiptalíkanið sem Gagnaveita Reykjavíkur starfar eftir er þekkt víða um heim og gefur góða raun.

Opin ljósleiðarakerfi

Aðilar að samtökunum eru ljósleiðarafyrirtæki sem starfa einungis á heildsölumarkaði og einbeita sér að því að byggja upp opin ljósleiðarakerfi, sem gagnist hvaða þjónustuveitanda sem er á dreifisvæði gagnaveitunnar. Þetta viðskiptalíkan er víða þekkt og vex ört undir skammstöfunum á borð við FTTH (Fiber to the home) og FTTB (Fiber to the business). Einkenni þessara innviðafyrirtækja er að þau leggja ljósleiðara alla leið til notanda þjónustunnar. Þannig fá þau fyrirtæki sem veita fjarskipta- eða fjölmiðlaþjónustu aðgang að öflugu dreifikerfi og almenningur fær valkosti um þjónustu frá fjölda fyrirtækja. Milljónir heimila og fyrirtækja njóta þessa aðgangs að ljósleiðara alla leið, sem eflir stafrænt hagkerfi Evrópu í heild.

Væntanlegar ESB-reglur styðja rekstrarlíkanið

Nýtt fjarskiptaregluverk ESB, kallað European Electronic Communications Code, styður við þetta viðskiptalíkan með því að fyrirtæki sem sinna eingöngu heildsölu á mörkuðum eru ekki sett undir sama hatt og smásölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði. Litið er svo á að fyrirtæki sem byggja upp öfluga innviði sem bjóða upp á mikinn flutningshraða og eru opin fyrir viðskiptum við hvaða smásala sem er, auki hraðann í uppbyggingu háhraðafjarskiptaneta og styðji þar með við snjallvæðingu samfélaga. Það er dýrt að leggja ný fjarskiptakerfi. Það er skoðun hinna nýju samtaka að innviðafélög, sem starfa einungis á heildsölumarkaði, geti nýtt samanlagða eftirspurn smásalanna til að byggja upp víðtæk ljósleiðarakerfi hraðar en ella.

Beita sér gegn blekkingum

Hin nýstofnuðu samtök munu einnig beita sér gegn misnotkun á ljósleiðarahugtakinu. Hámarkshraði gagnatenginga ræðst af veikasta hlekk á leiðinni frá þjónustuveitanda inn á heimilið eða í fyrirtækið. Með því að leggja ljósleiðara alla leið verður flutningshraðinn nánast ótakmarkaður. Eldri tækni, yfirleitt byggð á nýtingu kopartenginga, býður ekki upp á möguleika ljósleiðara en er engu að síður víða markaðssett sem ljóstengingar af einhverju tagi. Víða um lönd hefur tekist að villa um fyrir almenningi, að mati samtakanna.

Ljósleiðari GR vakið athygli

Elisabetta Ripa, forstjóri Open Fiber á Ítalíu var gestgjafi stofnfundarins í Róm. Hún segir það hafa verið mikla ánægju að taka á móti Erling Frey og stjórnendum annarra ljósleiðarafyrirtækja. „Fyrirtækin sem komu til Rómar ákváðu að samnýta krafta sína og koma á framfæri kostum ljósleiðarafyrirtækja sem starfa einungis á heildsölumarkaði. Þau fyrirtæki eru fljótari að koma ljósleiðara alla leið til heimila og fyrirtækja en þau innviðafyrirtæki sem eru að keppa við eigin viðskiptavini,“ segir Elisabetta Ripa, forstjóri Open Fiber á Ítalíu.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.