Gagnaveita Reykjavíkur krefst bóta vegna lögbrots Símans

15. apríl 2020

Gagnaveita Reykjavíkur hefur krafið Símann um tæplega 1,3 milljarða króna skaðabætur vegna fjárhagslegs tjóns sem fyrirtækið hefur orðið fyrir sökum brots Símans á fjölmiðlalögum. Krafan gæti hækkað þar sem talið er að brot Símans standi enn yfir. Gagnaveita Reykjavíkur gefur Símanum 14 daga frest til að bregðast við kröfunni og láta af brotum sínum í áskorun sem lögmaður félagsins sendi í dag. 

Krafa Gagnaveitu Reykjavíkur kemur í framhaldi af ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 10/2018 frá því í júlí í fyrra þar sem niðurstaða stofnunarinnar er að Síminn hafi brotið gegn fjölmiðlalögum með því að beina viðskiptum áskrifenda Sjónvarps Símans til dótturfélagsins Mílu. Brotin hófust 1. október 2015 þegar fyrirtækið setti hömlur á dreifingu tímaflakks og frelsis Sjónvarps Símans. 

Þessar ólögmætu aðgerðir Símans hafa orðið til þess að neytendur sem vilja aðgang að ólínulegu sjónvarpsefni fyrirtækisins verða að færa viðskipti sín yfir til Símans, þar sem einungis er hægt að nálgast það efni ólínulega um myndlykil Símans. Eftir að PFS tók sína ákvörðun, stendur fólki sem ekki er í viðskiptum við Símann, til boða áskrift að Sjónvarpi Símans en fyrir hærra verð og annarri vörusamsetningu. Gagnaveita Reykjavíkur telur því að brot Símans standi enn og hefur kvartað til Póst- og fjarskiptastofnunar vegna þess.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur:
Þetta mál snýst um að íslensk heimili geti keypt aðgang að því sjónvarpsefni sem það hefur hug á óháð því við hvaða fjarskiptafyrirtæki það skiptir. Fólk á að geta horft á RÚV, Netflix, Nova TV, Vodafone Sjónvarp nú eða Sjónvarp Símans án þess að þurfa að borga aukalega fyrir að vera hjá einu fjarskiptafyrirtæki en ekki öðru. Þannig á samkeppni að virka almenningi til hagsbóta. Krafa okkar kemur í framhaldi af þeirri niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar að á okkur var brotið.

Tilkoma Gagnaveitu Reykjavíkur hefur eflt mjög samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði, neytendum til hagsbóta. Opið net Gagnaveitu Reykjavíkur þar sem öll fjarskiptafélög geta keppt sín á milli um hylli neytenda hefur gerbreytt hag og valkostum íslenskra heimila.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.