Aldrei fleiri heimili tengd Ljósleiðaranum en 2016

erling31. ágúst 2017

Um 8.000 heimili fengu tengingu við Ljósleiðara Gagnaveitu Reykjavíkur árið 2016. Í lok ársins 2016 voru um 78 þúsund heimili tengd og verða í lok árs 2017 um 85.000. Á árinu 2018 mun Ljósleiðarinn ná til heimila á höfuðborgarsvæðinu öllu. Fjárfestingar fyrirtækisins námu 2,7 milljörðum króna, sem gerir það mesta fjárfestingaár fyrirtækisins frá stofnun þess fyrir um áratug.

12% tekjuaukning milli ára

Með fjölgun heimila sem nýta sér Ljósleiðarann hafa tekjur Gagnaveitu Reykjavíkur aukist. Þær námu 1,8 milljarði króna á árinu 2016 sem var liðlega 12% aukning frá fyrra ári. Fjölgun viðskiptavina hefur aldrei verið meiri á einu ári en 2016 og á árinu bættist fjarskiptafélagið Nova í hóp þeirra fyrirtækja sem nýta Ljósleiðarann til að selja þjónustu sína.

Enn meiri hraði með Eitt gíg

Á síðasta ári var það skref stigið að bjóða viðskiptavinum Ljósleiðarans Eitt gígabit hraða á sekúndu. Það er með því mesta sem þekkist og á verulegan þátt í því að Reykjavík er á meðal þeirra höfuðborga heimsins þar sem heimili eiga kost á mestum tengihraða.

Ljósleiðaravæðing höfuðborgarsvæðis langt komin

Fjárfestingarþörf Gagnaveitu Reykjavíkur vegna samkomulags sem fyrirtækið hefur gert við sveitarfélög minnkar hratt. Um næstu áramót verða einungis 5.000 heimili innan þéttbýlis á höfuðborgarsvæðinu ótengd. Á árinu 2016 jókst samkeppni í fjarskiptatengingum þegar sumum heimilum stóð í fyrsta skipti til boða að geta tengst tveimur ljósleiðurum. Gagnaveita Reykjavíkur telur Ljósleiðarann standa vel að vígi í samkeppninni. Ræðst það af því hversu útbreiddur Ljósleiðarinn er og að öflug fyrirtæki veita þjónustu um hann. Nú eru þau sex; Hringdu, Hringiðan, Nova, Símafélagið, Vodafone og 365.

Eignir Gagnaveitu Reykjavíkur námu í árslok 2016 15,1 milljarði króna og höfðu vaxið á árinu úr 12,9 milljörðum. Eiginfjárhlutfallið var 49,6%. Framlegð reksturs var minni en árið 2015, 958 mkr. á móti 994 mkr. Rekstrartap var 172 mkr. og þar af nam niðurfærsla á skattalegu tapi 133 mkr. Þetta kemur fram í ársreikningi Gagnaveitu Reykjavíkur fyrir árið 2016.