57% velja ljósleiðara

24. maí 2018

Nýting á ljósleiðara til heimila þaut upp á síðasta ári þegar ljósleiðaratengdum heimilum fjölgaði um 14.297 eða 33,8%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) þar sem farið er yfir stöðuna á íslenska fjarskiptamarkaðinum árið 2017. Heimili sem nýta sér koparsamband fækkaði um 9.215, sem er 10,9% lækkun milli ára. Af 133.574 heimilum með netsamband eru nú 56.649 tengd ljósleiðara alla leið sem er 42,4%. Talið er að um 100.000 heimili hafi átt kost á ljósleiðara við lok ársins 2017.

Staða ljósleiðara á Íslandi lok ársins 2017 er mjög góð

Það þýðir að 56,6% heimila sem eiga kost á ljósleiðara velja hann. Þessi nýting er til fyrirmyndar í alþjóðlegum samanburði og þess vegna stendur Ísland vel í samanburði tengihraða við nágrannaþjóðir.
Kopar á móti ljósleiðara lok árs 2017
Fyrir tíu árum voru einungis 1,3% íslenskra heimila tengd ljósleiðara eða 1.218 heimili. Á sama tíma voru rétt um 100.000 heimili á koparsambandi. Nú eru 133.574 heimili tengd fastlínunetum. 56.649 heimili eru tengd ljósleiðara alla leið og 76.925 koparsambandi.

Eitt gíg til heimila

Í skýrslu PFS kemur einnig fram að nethraði til heimila jókst verulega á síðasta ári. Fjöldi heimila með 1.000 megabita hraða tífaldaðist á árinu 2017, fór úr 2.261 og upp í 22.334.

Hraði til heimila hefur stóraukist í gegnum árin og eru nú yfir 20 þúsund heimili með þúsund megabita

Ljósleiðari Gagnaveitu Reykjavíkur á mikinn þátt í þessum framförum. Einungis 19 mánuðir eru frá því að heimilum bauðst Eitt gíg samband um Ljósleiðarann. Á þeim tíma hafa 90% viðskiptavina valið aukinn hraða. Áður en Eitt gíg bauðst gátu heimili annað hvort fengið 100 megabita eða 500 megabita á sekúndu á kerfi Ljósleiðarans. Nú stendur Eitt gíg til boða öllum heimilum sem eru tengd Ljósleiðaranum.

90 prósent viðskiptavina Ljósleiðarans eru komnir á Eitt gíg þjónustu

Mikil vinna og samvinna með Cisco og Genexis

Til þess að heimili tengd Ljósleiðaranum fengju Eitt gíg þurfti að uppfæra tækjabúnað í dreifikerfi Ljósleiðarans og ljósleiðarabox á heimilum. Þá var viðskiptavinum líka ráðlagt að uppfæra netbeina til að hraðinn nýttist sem best í þráðlausum tengingum innanhúss. Þökk sé náinni samvinnu við Cisco gekk vel að uppfæra kerfi Ljósleiðarans svo öllum þjónustusvæðum Ljósleiðarans stæði Eitt gíg til boða. Til að þessi uppfærsla á heimilum gengi sem örast, stóð þeim til boða að nýta sér Eina heimsókn, fría heimsókn Ljósleiðarans þar sem skipt er um ljósleiðaraboxið og öll tæki heimilis tengd á sama tíma.

Áhrifin mælast strax

Ísland er næst hraðasta land heims á eftir Singapúr

Speedtest.net mælir reglubundið tengihraða fjarskiptaneta um allan heim. Ísland er nú komið í annað sætið rétt á eftir Singapúr. Íslensk heimili mælast með um 162 megabita meðalhraða og Singapúr um 174 megabit. Nágrannaþjóðir okkar standa vel en eru þó nokkuð fyrir neðan Ísland. Svíþjóð stendur okkur næst, er í sjöunda sæti með 93 megabita meðalhraða.

Ísland í fyrsta sæti í heimi í upplýsinga- og fjarskiptamálum

Ísland fremst þjóða í upplýsinga- og samskiptamálum

Sameinuðu þjóðirnar taka saman árlega skýrslu um stöðu þjóða í upplýsingatækni og fjarskiptaaðgengi. Mældir eru margir þættir eins og aðgengi að netsambandi og tölvum, þar sem Ísland ber af. Allir þættir eru reiknaðir saman í þróunarstuðul. Í nýjustu skýrslu þeirra er Ísland komið í fyrsta sæti og tók það af Suður Kóreu sem hefur vermt efsta sætið um árabil. Hér er hægt að sjá stöðu þjóða á ICT skalanum hér.

Eitt gíg = 2.000 megabitar

Eitt gíg samband er í raun 2.000 megabita á sekúndu samband, þar sem Ljósleiðarinn býður upp á samhraða samband. Það eru þá 1.000 megabita niðurhalshraði og 1.000 megabita upphalshraði. Eitthvað af þeim hraða tapast við skipulag gagna og algengt er að sjá hraða rétt undir 940 megabita á sekúndu þegar tæki eru tengd með netsnúru. Hraði um þráðlaust net er hægara en net um snúru, og er mjög háð aðstæðum og fjarlægð frá netbúnaði. Algengur hraði um þráðlaust net er 200 megabitar miðað við góðar aðstæður. Dýrari búnaður getur farið umfram 400 megabita.

Mjög góð hraðamæling á heimili tengt Ljósleiðaranum

Aukinn hraði snýst ekki einungis um að koma einstökum tækjum á mikinn hraða, heldur að geta sinnt öllum nettengdum tækjum heimila og veitt aukin gæði. Tengd tæki hafa margfaldast síðustu árin og nú eru tugir tækja tengd á venjulegu fjölskylduheimili. Aukin bandvídd og lágur svartími er grunnstoð snjallvæðingar og stafrænna ferla nútímans.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.