359 milljóna króna hagnaður Gagnaveitu Reykjavíkur 2019

31. ágúst 2020

Afkoma Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) var góð á árinu 2019 og skilaði starfsemin 359 milljóna króna hagnaði og jókst hann um 87% milli ára. Meginástæða jákvæðrar afkomu er fjölgun viðskiptavina á heimilis- og fyrirtækjamarkaði undanfarin ár í kjölfar ljósleiðaravæðingar GR.

 „Þessi árangur er í samræmi við áætlanir okkar en Ísland er í fyrsta sæti í nýtingu ljósleiðara skv. skýrslu Idate og hefur verið á meðal fremstu þjóða í hraða fjarskiptasambanda um árabil,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri GR. „Markmið stjórnvalda um ljósleiðaravæðingu alls landsins er mjög mikilvægt og munum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar svo það náist. Það er mikilvæg forsenda samkeppnishæfni landsins, atvinnulífs og íbúa sem okkur ber að gæta að.“ 

Nokkuð hefur dregið úr fjárfestingum félagsins undanfarin ár og framtíðarfjárfestingar GR við uppbyggingu ljósleiðarans munu einkum koma til vegna snjallvæðingar og aukinna krafna um háhraðatengingar. Áfram verður unnið að ljósleiðaravæðingu í arðbærum verkefnum. 

Nú geta um 75% heimila á landinu tengst ljósleiðara GR og átt kost á eitt gíg netsambandi.

Lykiltölur í rekstri Ljósleiðarans
Fjárhæðir í milljónum króna20192018Breyting 2018-2019
Rekstrartekjur3.1342.65518%
Rekstrargjöld1.01690013%
Framlegð (EBITDA)2.1181.75521%
Rekstrarhagnaður (EBIT)1.22297026%
Hagnaður fyrir tekjuskatt41725564%
Niðurstaða ársins35919287%

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.